Dóttirin er búin að bjóða forfeðrum sínum í mat annað - TopicsExpress



          

Dóttirin er búin að bjóða forfeðrum sínum í mat annað kvöld. Nú er semsagt vandamál í uppsiglingu. Hún á það til að færast fullmikið í fang. Eða metnaðurinn er bara svona mikill, ég er ekki viss. Spurning kvöldsins er; hvað skal hafa í matinn? Hvað skal bjóða þessum ættarhöfðum að borða? Kvöldið er búið að fara í miklar pælingar um hvað sé rétt að hafa í matinn. Fyrstu hugmyndir hljómuðu í áttina að einhverskona pasta með kjúkling, lauk og „einhverju gumsi“ eins og hún orðaði það. Hún getur verið svo pen hún Ríkey. Það er kannski rétt á þessu stigi að taka fram að ég var ekki með í ráðum. Ég sat í Candy Crush og hlustaði með öðru eyranu meðan ég leysti sífellt flóknari þrautir í þessu áhugaverða spili. Hún heldur áfram að pæla í ýmsum tegundum af pasta og matseðillinn breytist með hverri flettingu gegnum Google. Jafnframt er reglulega farið yfir hvað til er í skápunum. Ostur, tékk. Pastasósa, tékk. Pasta, tékk. Laukur, nei. „Það aldrei neitt til hérna á þessu heimili“ er dómurinn. Fram að ná í penna og blað. „Það vantar lauk. Hvað vantar fleira?“ Ég er niðusokkinn í leikinn. „Ha?“ „Það er ekkert til, við verðum að muna að fara í búðina á morgun“ Pirringurinn í röddinni er greinilegur. Ég á bara tvö jelly eftir. „Búð? Ert ekki að vinna í búð elskan? Þú ert voða dugleg“ Ég veit ég fékk AUGNARÁÐ. Ég fann það á hnakkanum á mér. Hún á AUGNARÁÐ sem er tileinkað mér einum. Það er ekki elskulegt augnaráð. Það þýðir í senn, þú ert durgur og mundu að það verð ég sem vel elliheimili fyrir þig. Þegar ég fæ AUGNARÁÐ þá er hún orðin verulega pirruð, þessi elska. Annars er hún ágæt. „Þykja ömmu á Sunnó og afa Tomma gott að borða kjúkling?“ „Ha? Kjúklingur? Til hvers?“ Annað AUGNARÁÐ. Þetta sá ég. Ég fann að það var ein gott að fara að tjúna eyrun í átt að henni enda búinn með öll lífin í bili. „Hvað segirðu elskan? Hverjum þykir gott að borða?“ Svipurinn á henni var orðinn eins og á fjölfatlaðri kú sem er komin að burði. „Ég sagði þykja ömmu og afa góður kjúklingur?“ „Ég veit það ekki gullið mitt. Helduru þau vilji bara ekki eitthvað einfalt?“ Ef svipur getur sagt meir en þúsund orð þá horfði ég á heila skáldsögu í andlitinu á henni. Skáldsögu um eitthvað hræðilegt sem getur komið fyrir menn sem ekki veita dætrum sínum næga athygli. „Einfalt?“ Það hefði verið hægt að frysta þrjá kjúklinga af þessu eina orði. Það fór um mig. Þetta var greinilega miklu meira mál en ég hafði haldið. Ég setti heilann í gír og reyndi í örvæntingu að finna upp á einhverju til að bjarga málunum. Snöggur útreikningur. Afi er áttræður, amma áttatíuog tveggja. Úr sveit. Okey, definitly not pasta people. Soðning? Nei, ekki smart í matarboði. Bjúgu? Neinei. Hugmyndin kom eins og hlýr andblær. Kjötssúpa. Það er málið. Það borða allir kjötsúpu. Ekki síst tveir aldnir sveitalimir sem trúlega ólust upp á trosi og súrmat. „Hvað segirðu um kjötsúpu?“ Nú er ég með miða í vasanum sem ég á að fara með í búðina á morgun. Súpukjöt, súpujurtir, laukur og sitthvað fleira. Ég er bara feginn að hafa bjargað málunum. Til þess eru pabbar, að bjarga málunum þegar vandræðin banka upp hjá dætrum sem vilja búa ömmu og afa góða veislu.
Posted on: Thu, 05 Sep 2013 00:05:03 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015