Einu sinni þoldi ég ekki listamann. Og hafði horn í síðu - TopicsExpress



          

Einu sinni þoldi ég ekki listamann. Og hafði horn í síðu listamannalauna. Þessi listamaður birtist hér og þar í sjónvarpi og blöðum og útvarpi og án þess að fá rönd við reist fékk ég ofsabræðikast. „Þetta er nú meira helvítis skoffínið“ sagði ég. Kannski ekki orðrétt. En eitthvað í þá áttina. Það sem mé sárnaði mikið var að hann skyldi fá listamannalaun. Af hverju hann? Af hverju ekki ég? Mig langaði til að fá listamannalaun. Mig langaði til að skrifa merkilegar bækur. Þá bjó ég úti á landi þar sem tilveran snerist um fisk af öllum stærðum og gerðum. Mest þorsk. En líka ýsu. Og karfa og lúðu og blálöngu og kola og rækjur og svona smálegt. Ég vann í frystihúsi. Flakaði þar fisk, pakkaði honum eða skellti honum í frystitæki. Stundum var ég á lausfrystinum. Það var leiðinlegt. Sérstaklega að þrífa hann. Það var ógeðslegt. En heima við átti ég velkta stílabók. Í hana skrifaði ég ljóð. Einnig einstaka prósa. Stutta og hnitmiðaða. Mín eigin meistaraverk. Ég sat uppi í sófa inni í stofu úti á landi og hataði listamanninn í sjónvarpinu því hann lifði því lífi sem ég sá í hillingum og langaði til að lifa sjálfur. Mig langaði til þess að geta einbeitt mér að skrifum. Sitja dagana langa og íhuga setningar. Tilveru mannsins. Stöðu hans í heiminum og guðleysið og fánýtið og þrá mannsandans og drauma sálarinnar. Þess í stað varð ég að láta mér nægja að íhuga þetta alltsaman tínandi fiskbita upp á færiband. Fara að því loknu heim og skrifa nokkrar línur í stílabókina. Því ég var þreyttur. Ég var uppgefinn. Gat því lítið skrifað. Ég var bitur út í listamanninn. Ég var bitur út í listamannalaunin. Ég hafði aldrei sótt um slík laun. En mér fannst þau vera hræðileg. Skelfileg. Vond. Af hverju fékk hann þessa peninga meðan ég þurfti svona mikið á þeim að halda? Þetta mál varðaði ekki aðeins mig einan heldur allan heiminn. Heimurinn þurfti á því að halda að lesa minn ódauðlega skáldskap. En milli mín og heimsins var þetta óbrúanlega bil - sem aðeins fengist brúað með listamannalaunum. Umhverfið sem ég ólst upp í var ekki mjög vinsamlegt stórum draumum. Nema ef stóru draumarnir snerust um togara. En rómantískir listamannadraumar áttu ekki mikið upp á pallborðið hjá fólki. Reyndar alls ekki öllu fólki. Og alls ekki á öllum þeim krummaskuðum og smáþorpum sem ég bjó í þegar ég var ungur. Því það fer assgoti mikið eftir þorpsmenningunni. Þetta skiptist svolítið í tvö horn. Það voru þeir sem voru opnir fyrir listalífi og nýjum hugmyndum. Og svo þeir sem sáu ekki út fyrir sinn litla heim. Þeir sem skildu ekki verðmæti nema það væri hægt að éta þau. Eða sigla þeim út á sjó. Eða byggja úr þeim hús. Verðmætin þurftu að vera sýnileg eða ætileg. Helst bæði. Það var eitthvað sem fólk skildi. Ég hélt að þetta væri bundið við smáþorpin. Að þar væru menn svo forpokaðir út af aldalöngu hungri og vosbúð. Að þar byggi fólk svo fast í efnisheiminum af því að ömmur þeirra og afar höfðu aldrei átt nóg. Verðmætin fólust í matnum - bókvitinu verður ekki skellt á disk eða í ask og það étið með skeið. En þegar ég hélt út í hinn stóra heim þá komst ég að raun um að forpokunin átti sér allsstaðar samastað. Hún á sína fulltrúa í öllum stéttum. Öllum þorpum, bæjum og borgum. Meðal menntaðra manna eru reyndar notuð önnur hugtök. Þeir spyrja ekki „Hvernig getur maður étið það?“ Þeir spyrja um arðsemi. Því allt verður að skila arðsemi. Þessir forpokunarmeistarar eru hálfu verri - nei mörgum sinnum verri - en hinir forpokuðu þorpsbúar. Þau verðmæti sem ekki er hægt að meta til peninga eru í þeirra augum ekki verðmæti. Ef það er enginn að borga fyrir þau þá eru þau verðlaus. Þar með einskis virði. Þetta er viðhorf hinnar klassísku frjálshyggju. Það er vissulega til verðmæt list í augum þeirra. En það er bara list sem einhver vill kaupa. Meðan enginn kaupir hana er hún drasl. Málverk af því takinu er frekar sóun á hráefni en eitthvað annað. Þetta virðist mér vera viðhorf þeirra sem agnúast nú út í listamannalaunin. Ef þessir blessuðu listamenn geta ekki selt listina sína og lifað á því - þá eru þeir bara ekki nógu góðir listamenn! Púnktur! Síðan er farið út í þá sóun sem listamannalaunin eru - hversu mikið væri hægt að gera við peningana annarsstaðar. Listamannalaunin eru svo stór biti í augum margra að það virðist sem fyrir þau væri hægt að reka heilu sjúkrahúsin, byggja brýr og leggja vegi og eiga samt afgang. Ég veit ekki hvernig fólk hugsar þetta. En ég veit af mörgum sem telja að listamennirnir fái laun bara fyrir það eitt að vera listamenn. Að þetta séu óbundin laun eða styrkur sem listamennirnir geti ráðstafað að vild, að þeir geti farið til útlanda eða út á land og legið þar og klórað sér í bumbunni eða borað í nefið - allt eftir því hvort af þessu listamaðurinn sjálfur kýs að gera heldur. Ef nafninu yrði breytt í „Verkefnastyrkir til listamanna“ þá held ég að fólk ætti betra með að kyngja þessu. Því það eru listamannalaunin. Þau eru styrkir til verkefna. Eins og hjá Rannís þá þurfa listamennirnir að skila inn greinargóðri umsókn um þau verkefni sem þeir ætla að vinna að fyrir þessi laun. Síðan þurfa þeir að sýna fram á að þeir hafi unnið þessi verkefni - ef þeir ætla sér einhverntíma að fá meiri laun. En fyrir þá sem ekki vita er Rannís rannsóknarsjóður fyrir fræðimenn. Þar skila þeir inn umsóknum um styrki til rannsóknarverkefna. Um þann sjóð hefur ekki myndast þessi umræða þrátt fyrir að stór hluti af þeim rannsóknum sem þar eru styrktar séu frumrannsóknir sem ekki munu skila arði á næstunni. Eða rannsóknir sem ekki er ætlað að skila neinum arði heldur að bæta við þekkingu okkar á samfélaginu eða hvaðeina. Það þarf að halda því meira á lofti að þetta séu verkefnastyrkir en ekki einhverskonar bitlingar veittir fáeinum útvöldum. Önnur rök sem maður hefur séð gegn þessum launum er að aðrir fái þau ekki. „Af hverju ekki bændalaun eða sjómannalaun eða verkamannalaun eða markaðsmannalaun?“ Þegar þessi rök eru skoðuð ofan í grunninn kemur í ljós að flestar af þessum stéttum eru styrktar af ríkinu. Bændur fá milljarðastyrki á hverju ári. Sjómenn fá sérstakan persónuafslátt - sjómannaafsláttinn - af því að útgerðin á svo bágt með að borga þeim nógu há laun. Þann afslátt er reyndar verið af afnema í smáskrefum. Útgerðin fær úthlutað fiski úr stofnum landsmanna - frá ríkinu - sem hún hefur getað ráðstafað að vild. Þar eru milljarðar á milljarða ofan sem hún getur gengið í - núna eftir samþykkt Alþingis í gær nánast endurgjaldslaust. Það eru alvöru styrkir. 10 milljarða ávísun frá Bjarna Ben. Markaðsmenn gátu gengið fram með þá vissu í farteskinu að ef allt færi til fjandans þá myndi almenningur borga brúsann. Það fór allt til fjandans. Almenningur borgar brúsann næstu áratugina. Þar hlaupa styrkirnir á hundruðum milljóna. Verkamennirnir fá hins vegar lítið frá ríkinu. Umhverfi listamanna á Íslandi er þannig að fáir geta lifað af listinni einni saman. Flestir listamenn hafa því einnig aðra vinnu svona auka - til að eiga fyrir salti í grautinn. Fáeinir geta lifað af þessu. Það eru þeir rithöfundar sem selja í bílförmum. Þeir listmálarar sem hafa unnið sér nafn og eru „inn og kúl“ þessa stundina. Fáeinir tónlistarmenn sem búa til popptónlist og spila á böllum og svona. Fyrir hina er markaðurinn hérna einfaldlega of lítill. Það eru ekki nógu margir til að kaupa. Sama hversu góð listaverkin eru sem þeir skapa. Þeir sem lesa bara Arnald og Yrsu, eiga kannski gamlan Kjarval upp á vegg og hlusta á Sálina hans Jóns míns og Bubba finnst þetta auðvitað bara vera tóm della að styrkja þessa vesælinga sem skrifa flóknar bækur og mála abstrakt og búa til tónlist sem ekki er hægt að spila í partíum. Fyrir hina, sem vilja Laxness og Gyrði og Steinunni Sigurðar eða Vigdísi Gríms til að lesa á jólunum - þá eru listamannalaunin nauðsyn. En hvað um það. Ég hef sótt um listamannalaun og ekki fengið. Ég gerði semsagt eitthvað í þessu með drauminn sem ég ól með mér í frystihúsinu. Ég hef sótt um í svona sjóði þrisvar. Með engum árangri. Það var mikil vinna. Mér fannst verkefnin verðug styrkja. Nefndin sem sá um úthlutun var ekki sammála. Kannski fæ ég aldrei listamannalaun. Það er meira að segja mjög líklegt að ég fái ekki listamannalaun. Gyrðir Elíasson sem var búinn að fá hillufylli af viðurkenningum fékk lítil sem engin listamannalaun árum saman. Svoleiðis vinnubrögð fara enn í taugarnar á mér. Það er það sem ég hef við þessi listamannalaun að athuga - hvernig þeim er úthlutað - hverjir fá og hverjir ekki. En í grunninn á ég auðvelt með að sjá rökin fyrir því að laun af þessu tagi eru nauðsynleg. Ekki bara fyrir listamennina sjálfa. Heldur þjóðina alla. Líka þá sem hata listamannalaunin. Því með því að geta sinnt listinni þá verða til afurðir sem þeir geta notið. Leikrit sem þeir geta séð. Bækur sem þeir geta lesið. Málverk sem þeir geta hengt upp í stofunni hjá sér. Kannski hafa þeir gaman af ríkisstyrktu sjónvarpsefni eins og Dagvaktinni og Fangavaktinni eða bíómyndum eins og Með allt á hreinu eða Svartur á leik. En hvað listamanninn sem ég þoldi ekki úti á landi einn með velktu stílabókina mína þá eimdi eftir af óþoli gagnvart honum í ansi mörg ár. Mér fannst hann bara líta of listamannslega út. Tala of háfleygt í fjölmiðlum. Hann gekk um bæinn í frakka og með hatt og Le Monde undir hendinni - með trefil sem flaksaðist í vindinum og ég pirraði mig á honum. Ég hafði ekkert lesið eftir hann þá. Fannst hann bara vera lélegur listamaður svona fyrirfram. Og örugglega leiðinleg persóna. Ég hvar harðákveðinn í því. Síðan gerðist það að ég fór í skóla að læra list. Þar komst ég að því einn daginn að þessi hræðilegi listamaður ætti að kenna mér. Þá var ég orðinn aðeins eldri og örlítið þroskaðri. Svo ég tók þá meðvituðu ákvörðun að gefa honum tækifæri. Hann fór að kenna. Ég sat og hlustaði. Eftir nokkra tíma þá gat ég sagt með fullum sannfæringarkrafti að hann væri skemmtilegasti kennari sem ég hef nokkurntíma haft. Og hef ég haft þá marga. Sú ímynd sem ég hafði búið til af honum var ekkert í líkingu við þá persónu sem hann var og er í raun og veru. Hann var fjörugur. Fyndinn. Hoppaði til og frá í kennslunni. Bara hreint út sagt æði. Svo ég sá mig tilneyddan til að lesa eitthvað eftir hann. Og fannst það barasta helvíti gott! Þá loksins skildi ég að kannski hafði hann siðferðilegan rétt á því að fá laun fyrir vinnuna sína. En hvað um það. Mér finnst að listamenn og aðrir ættu að hamra meira á því að listamannalaunin séu verkefnastyrkir. Og heiðurslaun séu eftirlaun. Svo fólk skilji samhengið betur.
Posted on: Fri, 05 Jul 2013 11:16:56 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015