Ég þakka öllum góðum vættum að þessi erfiði dagur er á - TopicsExpress



          

Ég þakka öllum góðum vættum að þessi erfiði dagur er á enda og upp er runninn 25. október. Þetta var með skrítnari dögum sem við kisurnar höfum upplifað. Hún vaknaði í morgun með þá flugu í höfðinu að í dag væri kvennafrídagur. Við Púntur vissum nú ekki hvað það þýddi nákvæmlega eða hvaða afleiðingar það gæti haft, en við áttum eftir að uppgötva það svo um munaði. Það byrjaði nú á því að hún fór í vinnuna, yfirgaf okkur án þess að gefa okkur að borða. Síðan, þegar hún kom heim, tjáði hún okkur að kvennafrídagurinn merkti að í dag væri hún í fríi frá öllum húsverkum, stórum sem smáum, og ef við þyrftum einhvers með, þá yrðum við að bjarga okkur sjálf. Þvílík niðurlæging! Við erum nú ekki vön svona framkomu og höfum aldrei upplifað þær aðstæður að þjónustufólk fari í verkfall, alveg fyrirvaralaust. Púntur byrjaði auðvitað strax að væla um hungur, en ég ákvað að vera bara töffari, stakk mér út og hugsaði með mér að fyrst hún léti svona, þá ætlaði ég ekki að fara fram á neitt, hún gæti þá bara haft sína sérvisku í friði. Ég leitaði á náðir Kolla vinar míns og fékk hjá honum nokkur korn, svona til að seðja sárasta hungrið. Þjónustufólkið hans hafði ekki lagt niður störf. Þegar ég kom aftur inn, tveimur tímum síðar, var kominn matur á disk, búið að skipta um vatn í vatnsbólinu okkar og Púntur var sofnaður. Hún var aftur á móti hvergi sjáanleg og ég vakti Púnt til að spyrja hann hvernig þetta hefði endað. Jú, í svefnrofunum sagði hann mér frá því að hingað hefði komið karlkyns gestur og bjargað því sem bjargað varð. Hann hefði skipt um vatn og sett mat á disk. Þegar við svo yrðum svöng í kvöld, ættum við að borða matinn sem gesturinn hafði sett á gólfið í þvottahúsinu. Yfir honum væri plastfilma sem við gætum auðveldlega náð af. Mér var allri lokið! Hvers eiga kettir að gjalda að búa með svona uppreisnargjarnri þjónustu sem heldur að hún geti bara lagt niður störf án þess að gera nokkrar ráðstafanir? Ég lagði mig til kvölds, en í hefndarskyni hreinsaði ég alla púðana úr stofusófanum, dró hressilega til í eldhúsgardínunni (hún verður brjáluð), sleit alla skrautbangsana niður af vegghenginu, dreifði leikföngunum okkar Púnts um alla íbúð og nagaði sundur skóreimarnar í báðum írþóttaskónum hennar. Það verður fjör þegar hún ætlar í þeim út að hjóla næst. Og eitthvað á eftir að ganga á þegar hún fer að taka til eftir vinnu á morgun. En það er þó skárra að þola atganginn í henni en aðgerðarleysið, það segi ég satt. Og nú er hún sofnuð, alveg búin eftir daginn sem hún notaði til að gera ekki neitt. Hún hugsar sig vonandi betur um áður en hún framkvæmir svona heimskulegar hugmyndir aftur.
Posted on: Fri, 25 Oct 2013 01:13:50 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015