Það er gott að hafa góðar skoðanir. Góðar vel meinandi - TopicsExpress



          

Það er gott að hafa góðar skoðanir. Góðar vel meinandi skoðanir sem allir geta sætt sig við. Sem allir geta skrifað undir. Því sá sem er með góðar og fínar skoðanir er auðvitað góður og fínn maður. Eða kona. Sem gerir það að verkum að við keppumst flest við að vera með almennilegar og vel ígrundaðar skoðanir sem falla sem flestum í geð. Kannski ekki endilega öllum. Því auðvitað er fullt af fólki með vondar og lélegar skoðanir. Jafnvel rangar skoðanir. Hálfvitalegar skoðanir. Það er því ekkert slæmt við það að fólkið með vondu skoðanirnar sé eitthvað á móti okkar góðu skoðnum. Það sem skiptir mestu máli er að fólkið í kringum mig sé sammála mér. Að ég fái klapp á bakið eða læk á fésinu og svoleiðis. Þessvegna passar maður upp á skoðanirnar sína. Pússar þær og fægir svo að öðrum líki. Ég er samt með nokkrar vondar og lélegar skoðanir. Skoðanir sem falla kannski fáum í geð. Sumar jafnvel fáránlegar. Svona skoðanir sem maður er ekkert endilega að flíka á almannafæri. Það er líklega vegna þess að þær skoðanir eru ekki vinsælar. Það eru fáir með þær skoðanir. Og það sem verra er: Í staðinn fyrir að fá fyrir þær lof og klapp á bakið þá er líklegra að maður verði litinn hornauga, að í mann verði hreitt og jafnvel að einhver taki sig til og buffi mann í bakgarði af því maður er með svona lélegar skoðanir. Enda hefur mannskepnan stundað það lengi að úthúða fólki með lélegar skoðanir. Gera allskonar við það. Pína það jafnvel. Kveikja í því. Eða negla það á krossa. Bara eitthvað sem þaggar niður í þessum lélegu, slæmu og vondu skoðunum. Kommentakerfin eru fín í þessu nú til dags. Þar fara fram aftökur á hverjum degi. Svolítið eins og almennt torg í miðaldaborg þar sem vonda fólkið var hengt eða brennt milli þrjú og fimm á laugardögum. Þangað var hægt að fara með fjölskylduna og fá fría skemmtun. Þetta hafði uppeldislegt gildi. Svona fer fyrir fólki sem hagar sér illa eða er með lélegar skoðanir. Nú þarf maður ekki að fara niður á torg til að horfa á almennar aftökur. Maður getur skoðað þetta allt saman upp í rúmi þessvegna. Séð hvernig fórnarlamb dagsins er rifið sundur og skilið eftir í blóði sínu. Maður má jafnvel taka þátt. Við hin syndlausu getum tekið okkar stein og kastað. Og haft gaman af. Mínar lélegu skoðanir eru flestar tilkomnar vegna fávísi minnar. Ég er þannig gerður að ég á erfitt með að taka ákvarðanir um hvað sé rétt og hvað rangt með tilliti til flókinna mála. Til dæmis get ég ekki tekið afstöðu með eða á móti EB svona fyrirfram. Ég var tvístígandi gagnvart nýju stjórnarskránni sem átti að koma en kom ekki. Mér finnst ég iðulega ekki vita nógu mikið um málið til þess að mynda mér afgerandi skoðun. Ég er ekki nógu fastur á mínu til þess að vera sannfærður um að skoðanir mínar séu réttar. Upplýsingarnar réttar. Að ég sjái heildarmyndina nægilega vel til þess að ég geti tekið afgerandi afstöðu. En sem betur fer er það ekki alltaf þannig. Sumar af mínum lélegu og vondu skoðunum eru til komnar vegna einhverrar tilfinningar. Þær eru þarna og ég ræð ekki almennilega við þær með rökum. Svona eins og þegar ég var heima hjá ömmu á Bíldudal og fékk gaffalbita. En gaffalbitar voru vinsælir á brauð. Þeir voru síldarbitar í dós. Ég, sem venjulega át allt sem að kjafti kom, ætlaði að setja upp í mig gaffalbita en fékk einhverskonar straum eða stungu af bitanum. Hvernig veit ég ekki. En upp frá því hef ég aldrei getað sett upp í mig gaffalbita. Ég vissi að fyrir því voru engin almennileg rök. En svona var það samt. Svipað er það með grænar ólífur. Ég át salat með grænum ólífum og varð veikur á eftir. Ég veit það vel að ég var að verða veikur þegar ég borðaði salatið en get samt með engu móti borðað grænar ólífur. En svartar eru fínar. Ég ét þær með bestu list. Einn stór þáttur í þessum tilfinnigaskoðunum mínum lýtur að getnaði og fæðingu barna. Ég er haldinn þeirri hugmynd að svoleiðis eigi að vera náttúrulegt fyrirbrigði. Eigi að ganga fyrir sig á náttúrulegan hátt. Að það eigi ekkert að vera að fikta í náttúrunni. Inn í þetta fellur allur fjandinn sem tengist þessu svo sem glasafrjóvganir, staðgöngumæðrun, fóstureyðingar, sæðisbankar og eggjagjafir. En ég veit að þessar skoðanir eru byggðar á tilfinningu sem hefur kannski ekkert með réttlæti eða góðmennsku eða nokkuð annað að gera. Þess vegna hef ég ekkert verið að hafa mig frammi í þeirri umræðu. Viðurkenni fyrir sjálfum mér að þessar skoðanir séu einstrengingslegar og ekkert sértaklega heppilegar. Jafnvel heimskulegar. Ég get sjálfur komið með allskyns rök gagnvart þessum skoðunum mínum. Finnst þær á margan hátt rangar. En samt eru þær þarna. Frummanslegar kenndir líklega byggðar á ótta við að styggja náttúruna eða almáttugan guð eða einhvern annan sem gæti tekið upp á því að eyða heiminum eða eitthvað álíka gáfulegt. Ég hef fleiri vondar skoðanir. Sumar vel ígrundaðar. Sumum hef ég velt fyrir mér árum saman. Skoðað frá ýmsum sjónarhornum. Verið bæði með og á móti á einhverjum tímapunktum en eftir því sem á líður þá verð ég staðfastari öðru megin - og stundum ekki réttu megin. En auðvitað er þetta „réttu megin“ eitthvað sem fer eftir því hvaða skoðanir aðrir hafa. Ég var einu sinni kommúnisti. Gallharður. Svo harður að ég vildi að það yrðu gerðar staðlaðar íbúðir handa öllum, allir fengju eins sjónvarp og eins bíl og borðuðu það sama. Þá var ég 14. Í dag tel ég að kommúnisminn geti ekki virkað. Mannskepnan er einfaldleg þannig gerð að hann gengur ekki upp hjá þeirri tegund. Ég var frjálshyggjumaður á tímabili. Eða réttara sagt - gerði mitt besta til að verða frjálshyggjumaður. Ég var fylgjandi frelsi fólks til að gera það sem það vildi - og er enn þeirrar skoðunar (vil til dæmis lögleiða fíkniefni þar sem ég tel að það myndi leysa fleiri vandamál en það skapar). En bæði er ég á því að frjálshyggjan sé hjartalaus og að hinn frjálsi markaður gangi ekki upp - endi alltaf með einokun. Þar - eins og í kommúnismanum - er það hvernig mannskepnan er gerð hindrunin. Líklega er versta skoðunin mín sú að ég er ekki fylgjandi femínisma. En eins og með kommúnismann og frjálshyggjuna þá hef ég alveg prófað að vera femínisti. Það var á tíunda áratug síðustu aldar. Mér fannst hann vera nauðsynlegur til að koma á jafnrétti. Konan hafði verið kúguð öldum saman og núna var kominn tími til að leiðrétta það í eitt skipti fyrir öll! Ég setti upp sterk kynjagleraugu og las bækur og blöð og horfði á sjónvarpið með þeim og sá allskyns afmyndanir á stöðu konunnar. En einn daginn þegar ég var að horfa á Disneymynd með syni mínum sem þá var tveggja eða þriggja kom mér í hug að snúa kynjagleraugunum hinseginn. Horfa á hana með því hugarfari að karlinn væri valdalaust verkfæri konunnar og undir hana settur. Svo merkilegt sem það er þá tókst þessi tilraun með endemum vel. Svo ég fór að horfa á söguna og allt það sem henni fylgdi með öfugum kynjagleraugunum . Hvarvetna blasti við hvernig staðalímynd karla setti hann í hlutverk hins kúgaða. Hann þurfti að vinna öll erfiðu verkin, drepast í stríði og drukkna á sjó til að þóknast konunni sem hafði alvald yfir heimilinu. Hann réði engu um hvar hann bjó, hvernig hann bjó, hvað hann át eða hverju hann klæddist. Hann var heimskur í sjónvarpinu. Feitur og barnalegur sem gæti ekki lifað af einn heilan dag ef ekki væri konan til að passa hann. Hann var stórt barn sem þurfti pössun. Eftir að hafa gengið með kynjagleraugun öfugt um nokkra hríð og upplifað mig sem fórnarlamb og svona allskonar - þá tók ég þau niður. Ég taldi mig skilja að það var enginn sem bjó til staðalímyndirnar. Það var enginn sem ákvað þetta. Enginn sem setti reglurnar. Þær hafa þróast í aldaraðir. Kúgunin er miklu meira þar sem yfirstétt hvers tíma, bæði konur og karlar, lifa á þeim lægra settu á einn eða annan hátt. Þetta er allt mismunandi eftir menningarsvæðum. Talibanar berja konur eins og húsdýr. Boðorðin tíu telja eiginkonur með eignum mannsins. En á Íslandi hefur konan haft miklu meira að segja um líf sitt og annarra en víða annarsstaðar. Eins er það á hinum Norðurlöndunum. Á meðan er viðhorfið allt annað á Ítalíu. Hefur verið það lengi. Svo lengi að þegar Tacitus skrifaði um Germani fyrir nærri tvöþúsund árum þá hneikslaðist hann stórum á þessum germönsku þjóðflokkum sem sumir höfðu jafnvel konu sem höfðingja!!! En allt um það. Mér finnst femínisminn snúast um eitthvað annað en jafnrétti. Viðhorf hans vera brengluð og skökk. Hann er í grunninn kvenhyggja - sem er bein þýðing á orðinu. Segist berjast gegn feðraveldinu og hugmyndafræði þess en er fastur í því að auka völd og fjáreign kvenna - og þar með pikkfastur í þessu sama hugmyndakerfi . Ég er hinsvegar fylgjandi jafnrétti. Algeru jafnrétti. Það er að þjóðfélagið taki eins á konum og körlum í hvívetna. Að lögin gildi jafnt um kynin. Að dómstólar taki á þeim jafnt. Að bankar geri það. Að sýslumenn geri það. Að skólarnir geri það. Að allir geri það. En ég nenni ekki að búa í þjóðfélagi þar sem kona má ekki mála sig. Eða þar sem kona má ekki hafa hár undir höndunum. Þar sem konur mega ekki ganga í buxum. Þar sem karlar mega ekki mála sig. Þar sem pabbar fá minna fæðingarorlof en konur. Þar sem konur fá minni laun en karlar. Ég nenni heldur ekki að búa í þjóðfélagi þar sem fólk má ekki hafa skoðanir sem henta ekki fjöldanum. Þar sem fólk má ekki segja sínar skoðanir - hversu heimskulegar sem þær eru. Þar sem fólk er tekið af lífi af fávísu fólki á kommentakerfum. Þar sem fjölmiðlar elta fávisku fjöldans og kynda undir hana. Þar sem fólk má ekki vera samkynhneigt í friði. Þar sem Snorri í Betel má ekki vera forpokaður í friði. Ég nenni ekki þjóðfélagi sem dæmir fólk út frá húðlit þess, kynhneigð, búsetu, aldri, kyni, uppruna, ætt, eignum þess, stjórnmálaskoðunum, hvaða íþróttafélagi það heldur með eða hverju það klæðist. Ég nenni ekki forpokun og skrílshætti og heimsku og öllu þessu. En - hvort sem mér líkar betur eða verr þá bý ég í þjóðfélagi sem er nokkurnveginn svona. Ég ætla samt að hafa mínar skoðanir. Ég ætla að segja mínar skoðanir. Flestar. En þegja um þær sem ég veit að eru vitleysa. Fólk má vera eins sammála eða ósammála og það vill. Fara í fýlu eða hrópa húrra. Það skiptir nefnilega minnstu máli hvort fólk er sammála eða ósammála skoðuninni. Svo lengi sem það rugli ekki saman skoðun og fólki. Skoðanir eru bara það. Skoðanir. Þær eru ekki staðreyndir. Skoðanir breytast. Þróast. Vaxa eða hnigna eftir atvikum. Því ætla ég að segja mína skoðun þegar ég vil. Og skipta um skoðun þegar ég vil. Góðar stundir.
Posted on: Sat, 13 Jul 2013 14:50:56 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015