þakkaði fyrir viðurkenningu Máltækniseturs í dag: Mennta- - TopicsExpress



          

þakkaði fyrir viðurkenningu Máltækniseturs í dag: Mennta- og menningarmálaráðherra góðir gestir. Í nafni Máltækniseturs þakka ég kærlega fyrir þessa viðurkenningu. Máltækni, sem einnig hefur verið nefnd tungutækni á íslensku, felur í sér hvers kyns samvinnu og samspil málfræði og tölvutækni, í hagnýtum tilgangi. Þessi samvinna á sér tvær hliðar. Annars vegar getum við virkjað tölvutæknina í þágu tungumálsins, notað tölvur og hugbúnað til að auðvelda okkur hvers kyns meðferð málsins. Þar má nefna hugbúnað til að leiðrétta og leiðbeina um stafsetningu og málfar, þýðingarforrit, talgervla, hvers kyns tölvuorðabækur og margt fleira. Margt af þessu er kunnuglegt og til fyrir íslensku, þótt hún standi flestum nágrannamálum að baki á þessu sviði. Hinu átta menn sig kannski síður á hvernig hægt er að nýta tungumálið innan tölvutækninnar, enda er þar um að ræða byltingu sem er að verða um þessar mundir og á allra næstu árum. Við munum í framtíðinni geta notað tungumálið, venjulegt mannlegt mál, ritað og talað, til að afla okkur upplýsinga í hvers kyns gagnabrunnum og þjónustuveitum – til að leita á netinu, hafa samskipti við þjónustuver þar sem tölvur liðsinna okkur í stað fólks, og ekki síst til að stýra margvíslegum tækjum, allt frá bílum til heimilistækja. Þetta er þróun sem er komin vel á veg sums staðar erlendis, og vitaskuld kemur hún von bráðar til okkar – Íslendingar eru ekki þekktir fyrir að sitja aðgerðalausir hjá þegar tækninýjungar koma fram. En þá kemur spurningin: Hvaða mál ætlum við að tala við tölvurnar og öll þessi tölvustýrðu tæki? Ensku? Nei, auðvitað ekki – þó ekki væri nema vegna þess að það er alls óvíst að tækin skilji enska framburðinn hjá okkur. Vitanlega ætlum við að tala íslensku innan tölvu- og upplýsingatækninnar í framtíðinni. En til að það verði mögulegt þarf að vinna gríðarmikið starf í greiningu málsins, uppbyggingu hvers kyns mállegra gagnasafna, og smíði og aðlögun hugbúnaðar. Það er á þessu sviði sem Máltæknisetur hefur reynt að leggja sitt af mörkum, en ég legg áherslu á að setrið hefur ekki staðið eitt að þeim verkefnum sem nefnd voru hér á undan, og ekki átt frumkvæði að nema sumum þeirra. En geta setursins til að sinna þessum verkefnum er því miður takmörkuð. Hér kom fram að Máltæknisetur væri samvinnuverkefni Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Árnastofnunar, sem er rétt að því leyti að þessar stofnanir hafa gert með sér samstarfssamning um setrið. En í raun er þetta aðeins samstarfsvettvangur þeirra starfsmanna þessara stofnana sem vinna að máltækni. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar, og flestir vinna aðeins að máltækni í hjáverkum. Máltæknisetur hefur ekkert aðsetur, enga kennitölu, og ekkert fé. Verkefni þess hafa verið fjármögnuð með rannsóknarstyrkjum, innlendum og erlendum. en þeir eru nú þrotnir og engir nýir styrkir í sjónmáli. Aðstandendur Máltækniseturs vonast til að geta unnið áfram að því markmiði sem sett var í íslenskri málstefnu frá 2009, „[a]ð íslensk tunga verði nothæf – og notuð – á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings“. Þetta er mikilvægt fyrir íslenska málrækt og skiptir reyndar höfuðmáli fyrir framtíð tungunnar. En þetta er ekki síður mikilvægt mannréttindamál. Það eru sjálfsögð mannréttindi okkar að geta notað móðurmálið á öllum sviðum og það kemur ekki af sjálfu sér. Kærar þakkir enn og aftur fyrir viðurkenninguna.
Posted on: Sat, 16 Nov 2013 21:23:45 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015