fór á aðra kirkjukórsæfingu þessa misseris fyrr í kvöld og - TopicsExpress



          

fór á aðra kirkjukórsæfingu þessa misseris fyrr í kvöld og verður ýmislegt spennandi á döfinni á þessari önn. Eftir hana fór ég á tónleika á „Gamla gauknum“ að Tryggvagötu 22, þar sem ég vissi að hinn geðþekki trúbador Insol var að spila. Kom ég þar að í ausandi rigningu. Þegar inn var komið sat þar syfjulegur stráksláni í nokkurs konar miðasölu. Ég bauð gott kvöld og spurði hvort þarna væru trúbadorar að spila, þar sem ég heyrði meira að segja daufan óm raddar Insols þar sem hann var að segja sögu af lagi sem hann síðan flutti. „Ha?“ spurði strákur, „uuh, það hljóta að vera næstu dyr.“ Fór ég þangað og þar mætti mér ærandi rokktónlist. Spurði ég stúlku á barnum hvort þarna væru trúbadorar að spila. Kvaðst stúlkan sú ekki tala íslensku og koma frá Finnlandi. Bar ég sömu spurningu þá upp á sænsku. Vísaði hún mér þá að næsta barborði, beint á móti. Gekk ég þangað, bauð enn og aftur gott kvöld og spurði hvar trúbadorarnir væru að spila. Hávaðinn, líklega af einhverju þungarokki, var ærandi. Þá kom einnig í ljós að barstúlkan sú talaði heldur enga íslensku, heldur kvaðst hún vera bresk. Vísaði hún mér út að næstu dyrum en benti í öfuga átt. Fór ég út og labbaði lengra, en þar var engin hurð. Tóku að renna á mig tvær grímur. Ég tók sprettinn aftur að þeim stað sem ég hafði komið á — og viti menn, þarna söng Ingólfur Sigurðsson eða Insol öðru nafni einn sinna slagara. Heyrðist rödd hans enn greinilegar. Var ég orðinn nokkuð argur, enda auðvitað orðinn of seinn, vegna kóræfingarinnar. Byrsti ég mig ögn við strákslánann og spurði enn og aftur um Insol eða trúbadorana, heldur ákveðið. Röddin var líklega enn sjóðandi heit eftir kóræfinguna, svo að hann hlaut að hafa heyrt í mér. „Uuuh, já, trúbadorarnir,“ sagði hann og þarna vottaði fyrir afsakandi tannkremsbrosi. „Farðu bara hérna upp. Ég biðst afsökunar.“ Ég brosti á móti, þakkaði fyrir og hljóp upp. Það var eins og við manninn mælt, þarna stóð Insol með gítarinn sinn, spilaði og söng, eins og langamman forðum. Hafði hann fengið stúlku, sem þarna var, til þess að taka upp tónleikana fyrir sig í fjarveru minni. Eftir að Insol hafði tekið fjögur lög steig annar trúbador á sviðið, sem kallaði sig Skúla mennska. Ég hef sjaldan skemmt mér eins vel á trúbadoratónleikum og þarna (fyrir utan spilamennsku vinar míns). Textar Skúla voru bráðsmellnir og að langmestu leyti vel ortir og oft hló ég dátt. Sagði hann frá dvöl sinni á Ísafirði og í Súðavík og reyndist grunur minn réttur — hann var Vestfirðingur, frá Ísafirði — ég tók í höndina á honum og spurði hann beint — ekki spyr maður að Bolvíkingnum. Eftir magnaða og skemmtilega tónleika, sem Svavar Knútur hafði skipulagt, ók ég Ingólfi heim og er að fara í háttinn. Enn einn danstími í fyrramálið. Mál að fara í háttinn. Ykkar vinanna bíður vísast skemmtileg saga í fyrramálið, ef þið opnið síðuna mína. Góða nótt, hvar sem þið eruð.
Posted on: Fri, 30 Aug 2013 00:56:50 +0000

Trending Topics



Recently Viewed Topics




© 2015